Langt blogg frá Salz - ferðasagan...
Þegar þetta er skrifað sit ég á Segafredo rétt hjá aðalgötunni hérna í Salzburg, Getreidegasse (en þar er senst Mozartgeburtshaus staðsett - beint á móti Mango). Þessi dagur hefur verið ansi langur, vaknaði í ókunnugu rúmi, við hliðina á henni Sabinu, kl. 7 að staðartíma (það er 5 að íslenskum). Jáh, það er nú býsna löng saga þar að baki og ég ætla að skrifa hana alla (þó hún sé kannski ekki svo skemmtileg - bara sorrí, tölvan er besti vinur minn í dag...). Svo þið sem eruð í tímaþröng getið hætt að lesa hér :)
Ferðin hófst í gærmorgun um fimmleytið (að ísl. tíma). Þá lögðum við pabbi í ´ann til Keflavíkur og nokkrum tímum seinna lenti ég á Stansted, 25 mín á undan áætlun eins og ég hef þegar sagt frá - voða gaman.... Dvölin þar var þó ekki svo slæm, tölvan hélt mér í stuði - þar til hún varð batteríslaus. (Ég gerði dauðaleit að innstungum, fann þær loksins hinum megin við tollinn (alveg sérstakur bás “plug-in, log-in”) en audda öðruvísi innstungur...!) En loks var haldið af stað til Salzburgar (já og ég þurfti að borga helv. yfirvigt f. 6 kg (konan gaf mér eitt)). Þar lenti vélin 20 mín á undan áætlun (hvað er með það - aldrei lent í þessu fyrr!) og stuttu síðar var ég komin upp í taxa. Hann skutlaði mér í Billrothstraβe 10-18 þar sem ég á víst að búa.
Ég vissi svo sem ekkert hvernig ég kæmist inn eða hvort ég væri búin að fá herbergi, en ég hafði sent e-mail síðastl. mánudag að spyrja um þetta. Hún Elisa svaraði mér að það yrði ekkert mál að komast inn þó það væri kvöld, hún myndi athuga hvort hún fengi ekki einhvern nemanda til að taka á móti mér með lykilinn minn og ætlaði að láta mig vita á miðvikudag. Ég heyrði ekkert aftur frá henni svo ég bara vissi ekki neitt.
En ég var heppin, húsið var ólæst. Ég fer inn og skoða mig um, leita að einhverjum en rek þá augun í einhverja tölvugræju þar sem ég (er svo mikill tölvunörd) finn nafnið mitt og herbergisnúmer! Já, ég á greinilega herbergi þarna nr. 601! Þá heyri ég mannamál og geng á hljóðið, jú, haldiði að það sé ekki bar (þess vegna var opið!) þarna f. innan eitthvað gallerí (já, listgallerí - reyndar ljót listaverk en það er allt önnur Ella), - bar með pool og dæmi, og ég bara fæ barþjóninn til að hjálpa mér. Hann kannast ekkert við neina Elisu eða nafnið mitt en ég sýni honum nafnið mitt í tölvugræjunni og hann segir mér hvernig ég finni herbergið mitt. Það er senst uppi á annarri hæð í þessari sömu byggingu og ég er enga stund að finna það, en það er að sjálfsögðu læst. Þá finn ég einhvern gaur þarna á ganginum og spyr hann hvort hann kannist eitthvað við eitthvað og hann veit ekkert en bendir mér á að banka á nr 614, þar búi konan sem þrífi heimavistina, hún gæti kannast við málið. Ég banka og til dyra kemur góðleg eldri kona og dóttir hennar, sem hlýtur að vera í eldri kantinum (komin með grátt í vanga en engin leið að segja til um aldur þó) og er greinilega eitthvað mis-svona. (Vó! - innskot - það var maður að blikka mig hérna! og dást að tölvunni minni! Ertu ekki að grinast í mér? Og hann er með strípur! Fullorðinn karlmaður... Ég meinaða sko... Jæja, áfram með söguna:) Ég útskýri málið fyrir góðlegu konunni (n.b. á þýsku, hún lítur ekki út fyrir að tala mikla ensku) og hún veit ekki neitt, og í ljós kemur að hún vinnur ekki á þessari heimavist heldur Evrópuheimavistinni og er því ekki með neina lykla. Við förum aftur niður og tölum við barþjóninn, en þau geta ekkert gert f. mig og ég (kófsveitt af labbinu með 40 kílóin mín upp og niður fullt af tröppum) er við það að fara að háskæla þegar barþjónninn útskýrir f.mér hvernig ég komist á næsta hótel. Heyrðu, þá bara býður góða konan mín mér að gista hjá sér og dóttur sinni og að sjálfsögðu gat ég ekki afþakkað það ótrúlega boð, og hún tók heldur ekki annað í mál svo ég enda í kakói og smákökum uppi í stofu hjá henni (yfir einhverjum furðulegasta sjónvarpsþætti EVER! - í alvöru, ímyndið ykkur íslenskan talk show, með Gísla Marteini eða Hemma Gunn og Evu Maríu í risastórri leikmynd með fullt af áhorfendum í sal - og allt er í söngleikjaformi! - vá, bara vírd sko...). En héreftir ætla ég að kalla þessa góðu cleaning lady ömmu mína (í laumi sko) en ég veit ekki hvað hún heitir (já, alveg glötuð ég veit), en við erum að tala um að amma góða gekk úr rúmi f. mig og svaf á hörðum svefnsófa í stofunni! Og ég svaf í rúmi hennar og dótturinnar - þær sofa saman í tvíbreiðu sko. ( - Vó, hann er að stara á mig sko! Hvað er að?!)
Við spjölluðum svolítið á þýsku yfir smákökunum og ég kemst að því að þær koma frá Bosníu (þess vegna náum við svona vel saman á þýskunni, allar frekar slappar í henni) dóttirin sem heitir Sabine, er að læra þýsku og vinnur hjá póstinum (held ég) og amma á son sem býr í Bandaríkjunum með tvö börn, 11 og 5 ára. En ömmu fannst ég tala svona líka fína þýsku, “Dein Deutsch ist super!” sagði hún, og Sabine hélt ég væri múslimi og finnst ég hafa “sehr schöne figur”. Og þar hafiði það elskurnar mínar!
Jæja, þetta er orðið alltof langt en ég hef bara svo margt að segja frá og engan að tala við! - þetta var bara gærdagurinn. Dagurinn í dag hefur einnig verið býsna viðburðaríkur en ég hugsa að þetta sé nóg handa ykkur í bili.
Veriði nú dugleg að ímeila mér um allt sem ykkur dettur í hug og ég lofa að reyna að svara eftir bestu getu! :)
Annars bara líður mér vel....